Ríkey Ofurbloggari!

Lífið í Danmörku

21 janúar 2004

Jæja.
Sælt veri fólkið.

það er nú svolítið langt síðan að ég skrifaði síðast, en það er nú svona þegar maður er á fullu í verkefni, í jólafríi og svo í prófum. Maður hefur bara ekki tíma fyrir þetta.
Annars er þetta léleg afsökun, ég veit það.

Það hefur allavega margt gerst síðan í nóvember..... og þó ekki.....
Ég er auðvitað búin að skila verkefninu og er ekkert smá stolt af húsinu okkar. Svo fórum við heim í jólafríinu. Við vorum samferða Eyfa, Mæju og Vigdísi Helgu heim. Það var mjög gaman, þó að ferðalagið taki 10 til 12 tíma samtals. Við vorum í 2 vikur heima, ég fór strax austur daginn eftir en var þó ekki nema í 6 daga. Halli frændi var hjá okkur um jólin og það var mjög fínt. Það er gaman að fá svona gesti.
Svo fór ég allavega suður aftur því að Diddi og Halla voru að skíra. Dóttir þeirra heitir Auður María.
Svo voru auðvitað áramótin haldin fyrir sunnan. Þau voru frekar róleg. Það var ég veit ekki hversu margrétta kvöldmatur heima hjá Hauki og svo fórum við í partý til Óskars og Kötu eftir miðnætti.
Svo var eiginlega bara afslapperí þangað til að við fórum aftur "heim" til Danmerkur 3. janúar, aftur samferða Eyfa, Mæju og Vigdísi.
Svo var það bara beint í stærðfræðitíma á mánudeginum og það var reiknað og reiknað langt fram eftir kvöldum. En það borgaði sig, ég náði stærðfræðinni.
Því næst var það próf/fyrirlestur í verkefninu. Ég fór í það í fyrradag. Við fengum 8 (skv. dönsku einkunnakerfi, sennilega um 7 í ísl.). Við vorum ekkert allt of sátt við það, við hefðum sennilega getað fengið meira ef við hefðum undirbúið okkur betur. Ég gat nefnilega ekkert gert á sunnudaginn því að ég fékk klemmda taug í bakið og var alveg ónýt. Ég gat ekki einu sinni labbað eða andað almennilega hvað þá meir. En ég er öll að koma til núna, það tekur smá tíma að jafna sig eftir svona. Ég fékk bara verkjalyf sem ég er reyndar hætt að taka núna.

Svo átti ég auðvitað afmæli 13. Daginn sem að ég var í stærðfræðiprófinu. Það er svolítið skrítið að vera í prófi á afmælisdaginn, það eyðileggur svolítið fílinginn sko. En við Haukur fórum upp í Storcenter og kíktum í búðir og svo fórum við út að borða um kvöldið þannig að þetta var alveg ágætis afmælisdagur.

Svo vorum við að kaupa okkur jólagjafir í gær. Við fengum sko pening í jólagjöf og keyptum okkur örbylgjuofn sem er með svona grilli, þannig að hann getur virkað svona eins og venjulegur ofn líka. Svo keyptum við okkur vefmyndavél þannig að það er um að gera fyrir alla að drífa sig á msn til að spjalla.

Jæja. Ég er farin að poppa í nýja örranum mínum. Ég vona að þetta bæti aðeins fyrir fréttaskortinn. Við byðjum að heilsa öllum héðan frá Danmörku.

Elska ykkur öll
Ríkey

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim