Ríkey Ofurbloggari!

Lífið í Danmörku

02 maí 2004

Þýskaland!

Heil og sæl öllsömul.
Ég sit hérna í pilsi með opna svalahurð, að hleypa sumrinu inn í íbúðina. Það er æðislegt veður, en því miður verð ég að vera inni að læra og taka til.
Við fórum fjögur í ferð til Þýskalands í gær, ég, Haukur, Eyfi og Anna Dröfn. Það var lagt af stað í rútu kl. 8 um morguninn og keyrt í u.þ.b. 4 tíma í átt að Padborg, sem er staður rétt við landamæri Danmerkur og Þýskalands, Þýskalandsmegin. Þar voru versluð á ca. 2 tímum um 7 kg af nammi, 110 lítrar af öli, nokkrar flöskur léttvín og aðeins fleiri af sterku, auk ýmissa smáhluta, eins og t.d. piparsprey handa konunum. Svo var haldið aftur heim á leið og vorum við komin til Álaborgar um 7 leytið. Þetta var svakafjör og þessir 7 tímar í rútunni liðu eins og skot. Við eignuðumst meira að segja vini á leiðinni. Asíumaður sem sat við hliðina á strákunum bauð okkur öllum upp á bjór á leiðinni til baka og ætlaði svo bara ekki að hætta. Ég veit ekki hvað oft hann fór og keypti á línuna. Svo vingaðist Anna við einhverja gaura sem sátu fyrir framan okkur sem vildu óðir fá að vita eitthvað um Ísland og Færeyjar, hvort að þetta væru ekki svolítið svipaðir staðir. Anna spilaði bara með og þóttist vita allt um Færeyjar. Það er ótrúlegt hvað danir virðast halda að við umgöngumst Færeyinga. Þeir rugla okkur alltaf saman og maður þarf stundum að minna fólk á nokkrum sinnum í samtalinu að maður komi frá Íslandi en ekki Færeyjum. Það halda líka flestir að maður komi þaðan þegar að þeir heyra mann tala og það líður yfirleitt ekki á löngu þangað til að þeir gefast upp og spurja mann.
En nóg um það. Ég er að hugsa um að fara að gera eitthvað uppbyggilegt, eins og að leggjast í sólbað eða eitthvað. Bið að heilsa í bili.
Ríkey.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim