Ríkey Ofurbloggari!

Lífið í Danmörku

16 febrúar 2005

....stendur undir nafni!

Jæja gott fólk. Ætli maður verði nú ekki að skrifa eitthvað á þessa síðu. Ég hef tekið eftir að þið eruð mjög dugleg að kíkja á hana allavega og maður verður nú að verðlauna það, eða finnst ykkur það ekki?
Annars er ekki mikið að frétta. Ég er á fullu að gera miniverkefni. Ég byrjaði að vinna út frá nöglum og núna er ég að hugsa um að búa til nýja gerð af umbúðum utan um ost. Hvernig kemst maður frá nöglum yfir í ost spyrjið þið þá kannski... ja... það þýðir nú eiginlega lítið að spyrja mig, en það er örugglega tenging þarna einhvernstaðar. Ég þarf nú samt að ræða aðeins við kennarana áður en ég slæ þessu fast. Mér finnst þetta allavega vera besta hugmyndin sem ég hef fengið hingað til. Ég veit bara ekki úr hverju þetta á að vera. Uppástungur eru vel þegnar. Það þarf allavega að vera eitthvað sem getur verið þræðir sem haldast vel saman en er auðvelt að rífa í sundur samt sem áður. Og svo líka eitthvað utan á það til að verja það lag, svona í einhvernskonar flögum eða eitthvað.... ef þið skiljið hvað ég á við.... nei... sennilega ekki. En það mátti reyna.
Annars er lítið annað að frétta svo sem. Við erum að fara á þorrablót á laugardaginn 26. Það verður vonandi mjög gaman. Davíð Þór kemur að skemmta og hin frábæra hljómsveit Spútnik, sem ég hef ekki hugmynd um hverjir eru. Svo verður líka happadrætti um flug fyrir 2 til Íslands. Ég ætla að vinna það.
Jú, stórfrétt.... Anna Dröfn bloggaði! Loksins kom eitthvað frá þér Anna mín. Ég var nú bara farin að sakna þín svolítið.
Það er allt út í snjó hérna í Dk, í fyrsta skiptið í allan vetur. Og það er meira en bara smá hula. Það eru smá skaflar og klaki og bara læti sko. Það var nefnilega "snjóstormur" um daginn. Það er eitthvað sem að við Íslendingar myndum kalla snjókomu og smá blástur, en hei.... Danir eru dramatískir þegar að það kemur að veðri, það verður nú bara að segjast.
Jæja, nú er ég alveg orðin tóm. Ég bið bara að heilsa ykkur í bili.
Vetrarkveðja, Ríkey.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim