Létt kjöt og grænmeti gott fyrir línurnarNú þegar jólavertíðin er ekki langt undan er ekki úr vegi að huga að hollustunni og jafnvel þyngdinni. Nóvemberhefti franska heilsublaðsins "Santé Magazine" lumar á nokkrum heilræðum sem ættu að hjálpa til við að halda þyngdinni á réttu róli, alla vega fram að jólum.
* Borðið létt kjöt eins og kjúkling eða fiðurfé sem er laust við mikla fitu.
* Notið pönnu og potta sem hráefnið límist ekki við því þá þarf að nota minna af steikingarolíu.
* Varist að krydda matinn of mikið (þetta á sérstaklega við salt) en notið krydd eins og cumin og engifer sem hjálpa til við meltinguna.
* Mælt er með því að borða linsubaunir að minnsta kosti einu sinni í mánuði því þær innihalda trefjar og magnesíum og eru sérlega orkuríkar en lausar við fitu.
* Kál, sætar kartöflur og rófur eru seðjandi en einnig ríkir fólínsýrugjafar og innihalda a-vítamín sem er gott fyrir sjónina og einbeitingu.
* Konur ættu að borða fitulítið lambakjöt reglulega því það er einstaklega járnríkt.
* Soðnir tómatar eru betri en hráir því líkaminn nýtir betur næringarefnin sem í þeim finnast.
Hér á eftir er létt og bragðgóð uppskrift, því það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að njóta matmálstímans þó að passað sé upp á kaloríurnar.
Fiskur frá Senegal
Fyrir 6
750 g hvítur fiskur (ýsa eða þorskur)
50 g harðfiskur
1 msk olía
4 msk tómatpúrra
3 rauðar paprikur
1 græn paprika
2 gulrætur
2 rófur
1 eggaldin
½ kálhaus
200 g sætar kartöflur
3 laukar
½ tsk chili-pipar
salt og pipar
Fyrir sósuna:
fersk steinselja,
1 ferskur chilipipar,
1 laukur
Skrælið grænmetið og laukinn. Skerið kartöflurnar, kálið og paprikurnar í fernt og fræhreinsið paprikurnar. Skerið til helminga gulræturnar og rófurnar. Skerið eggaldin í sneiðar. Léttsteikið fiskinn í heitri olíunni í góðum steikingarpotti. Geymið hann svo til hliðar. Brúnið laukinn og bætið svo tómatpúrrunni við ásamt ½ l af vatni og ferska chilipiparnum þangað til suða kemur upp. Bætið við grænmetinu og harðfiskinum í bitum. Fyllið af vatni, saltið (mjög lítið vegna harðfisksins), piprið og látið malla í 40 mínútur. Bætið svo hvíta fiskinum við og látið krauma í 10-15 mínútur. Notið soðið til að búa til sósu. Saxið laukinn og steinseljuna og bætið chili út í. Í þessum rétti eru um 245 kílókaloríur (kcal) á mann.
Verði ykkur að góðu!