Ríkey Ofurbloggari!

Lífið í Danmörku

30 maí 2009

Sumarið er tíminn...

Ég sit hérna á sófanum og horfi út um svaladyrnar á glampandi sólskinið og er að spá af hverju ég sit hérna inni í tölvunni.
Kannski er það af því að Eiríkur er sofandi og það þarf að hlusta eftir honum. Annars er hann orðinn það stór að hann klifrar sjálfur upp úr rúminu þegar hann vaknar. Svo situr Haukur líka hérna við hliðina á mér þannig að hann heyrir nú líka í honum.
Kannski er það bara leti í mér að nenna ekki að labba 2 skref til að sitja í sólinni, en sjáið til... þá sér maður svo illa á tölvuskjáinn. Ég gæti líka farið út með tímarit, eða nýju bókina mína.

Já ég veit, ótrúlegt, en ég keypti mér bók um daginn: "101 things I learned in architecture school", og er nú þegar búin að læra helling af henni, til dæmis hvernig á að teikna línu. Hljómar kannski svolítið 'banalt', svo ég sletti nú svolítilli dönsku, en lína er ekki bara lína.

Þegar maður býr í landi þar sem sólskin og heiðskýrt og 20 stiga hiti er ekki eitthvað sem bara gerist einu sinni á ári, á maður svolítið til að vanmeta það. Auðvitað ætti maður að vera úti og njóta veðursins. Það er ekki eins og við verðum í Danmörku að eilífu og við eigum eftir að sjá mikið eftir veðrinu þegar við flytjum, en mikið er nú huggulegt að sitja hérna inni samt.

Það getur nú líka verið of mikið af því góða stundum. Ég fékk nú alveg nóg í gær eftir að hafa setið í sólinni í 5 mínútur. Það var bara allt of heitt.

Ég held að ég fari samt að hætta þessu kvarti yfir veðrinu og standi upp og setjist aðeins út, þó ekki væri nema í 5 mínútur. Heyrist líka Eiríkur vera að vakna rétt í þessu.

Ríkey.

22 maí 2009

Við fórum með bílinn okkar í skoðun um daginn og fengum ekki góða einkunn. Það þarf að skifta um dempara að aftan, sem við reyndar vissum og Haukur var búinn að panta. Þeir Gústi fóru svo í gær til að skifta um demparana, en auðvitað höfðum við fengið framdempara, en ekki afturdempara. Er þetta ekki bara týpískt?
Haukur fór svo í dag til að skila þeim og panta nýja. Eiríkur vil líka fá "dempanda" í sinn bíl og er búinn að vera að gera við hann í allan morgun.

Við komum heim í 2 vikur í sumar og höldum upp á þrítugsafmælið hans Hauks. Hann er farinn að verða gamall karlinn, veit ekki alveg af hverju maður ætti að halda upp á það, en eins og hann sagði sjálfur... maður verður bara þrítugur einu sinni.

17 maí 2009

Lítil frænka fædd.

Ég fékk óvænt símtal í gær í miðri stigagjöf alla leið frá Kanada.
Lína og Dave eignuðust litla stelpu, 9 dögum fyrir settan dag, þannig að ég átti nú ekki von á að heyra frá henni strax. Allt gekk vel skildist mér og allir voða hamingjusamir.
Innilega til hamingju enn og aftur elskurnar mínar.

No. 2

Ég er bara annsi ánægð með þetta... að vinna 2. sætið í Euro. Mjög spennandi keppni um annað sætið, ekki svo mikið um fyrsta. Það lá nú klárt frá fyrstu tölum.
Gott mál.

16 maí 2009

Seint blogga sumir en blogga þó...

Ja hérna, var að kíkja á bloggið mitt og það eru 2 ár, rúm, síðan ég skrifaði eitthvað síðast. Spurning um að fara að lífga þetta eitthvað við... við skulum sjá hvort það gangi.
Við erum að fara í Eurovision party í kvöld, en samt meira svona hygge en party samt. Ég hef tröllatrú á Jóhönnu Guðrúnu, en er nú samt ekki viss um að við vinnum. Noregur er sterkur, annars finnst mér líka Eistneska lagið flott. So sorry Anna mín, en ég held að Ísrael komist ekki langt.

Jæja. Best að fara að bera út boðskapinn um upprisu ofurbloggarans.
Ríkey.

P.s. auglýsi eftir barnabílstól í sumar, fyrir 15 kílóa, tveggja og hálfs árs gamlan strák :)