Ríkey Ofurbloggari!

Lífið í Danmörku

17 nóvember 2004

Jólin, jólin alls staðar...

já... haldiði að Álaborgarbúar séu ekki bara búnir að setja upp jólaskraut í bænum sínum. Jólasveinninn er kominn upp við Nytorv og það er búið að kveikja á ljósunum og allt. Það eru búnir að vera menn í óðaönn við að setja ljósin á trén hérna síðustu daga líka. Búðirnar eru farnar að selja jólavörur og ég veit ekki hvað og hvað. Menn eru bara komnir í jólaskap. Nú bíður maður bara eftir að fara að heyra jólalögin í útvarpinu (sem myndi kannski gerast ef maður hlustaði á útvarpið, en hver veit....).

Ég er að hugsa að fara að fordæmi annarra hérna í bloggheiminum og útdeila svokölluðum kommentaverðlaunum, en það eru verðlaun veitt þeim sem eru duglegastir til að kommenta á það sem maður skrifar. Ég held að það fari ekki á milli mála hver hlýtur heiðurinn í ár..... ef fólk hefur tamið sér að lesa kommentin á þessu bloggi mínu þá ætti enginn að vera í vafa.

Vinningshafinn er enginn annar en......trommusláttur..... LÍNA! Þú hefur staðið þig með príðum við að kommenta, takk æðislega, það er fátt betra en að fá komment. Í verðlaun færðu hvorki meira né minna en stórt "kys og kram", þ.e.a.s. þegar ég hitti þig um jólin.

jæja... Mér dettur ekkert fleira í hug að segja.....
Bið bara að heilsa í bili.

Ríkey

12 nóvember 2004

Vatn

Ástæðan fyrir titlinum á þessum litla texta er margföld. Vatn hefur nefnilega mikið komið við sögu í mínu lífi þessa dagana.
Til að byrja með get ég nefnt rigninguna sem var áðan. Ég kom heim gjörsamlega blaut í gegn, ég er ekki að grínast, og ég var ekki einu sinni lengi úti, hjólaði bara heim úr skólanum.

Svo eru niðurföllin í íbúðinni okkar búin að vera stífluð, og ekkert smá stífluð verð ég að segja. Eldhúsvaskurinn byrjaði að vera leiðinlegur í síðustu viku og á laugardaginn síðasta var hann alveg stíflaður. Ég gat bara vaskað upp smá í einu því að vaskurinn fylltist alltaf af vatni og tók óratíma að tæmast. Ég tók meira að segja upp á því að ferja vatnið ofan í klósettið til að geta haldið áfram að vaska upp. Við vorum búin að reyna að setja stíflueyði í vaskinn en ekkert gekk. Svo á mánudaginn fórum við og keyptum drullusokk til að reyna að redda þessu. Það virkaði nú eitthvað en ekki nógu vel samt. Um kvöldið, eftir karateæfingu, ætlaði ég svo að fara í sturtu. Eftir nokkrar mínútur í sturtunni tók ég eftir því að allt baðherbergið var á floti þannig að ég gat ekki gert mikið meira en aðeins að bleyta mig :( . Ég reyndi svo og reyndi að laga þetta með drullusokki og stíflueyði en það þýddi lítið því að bæði eldhúsvaskurinn og baðvaskurinn eru tengdir í sturtuna og það eina sem ég gerði var að blása lofti út um þá. Það var ekki fyrr en í gærmorgun sem að það kom maður að gera við þetta, nota bene kl. hálf 8 um morguninn því að 3 um miðjan daginn er víst of seint!?! Ef það hefði ekki verið fyrir hana yndislegu Maríu, sem að bauð mér heim til sín í sturtu, þá væri ég sennilega farin að mygla, svona eins og uppvaskið.

Það síðasta sem ég ætla að nefna í sambandi við vatn er næsta verkefni í skólanum og reyndar þessi vika líka. Við eigum nefnilega að hanna hlut inn í baðherbergi, eða "produkt til vådrum", en næsta verkefni er innan ID, iðnhönnunnar. Ég er búin að vera alla þessa viku að hanna alls kyns dót og drasl sem venjulega heyrir til inni á baði. Ég endaði á því að hanna krana við baðvask sem að stendur út úr veggnum. Fyrirmyndin var foss og öfugt við hefðbundna vatnshana, sem sprauta vatninu út í sívalningi, þá fer vatnið flatt út úr mínum, tja... kannski svolítið svona eins og foss, mærkeligt nok... Hann er rosalega flottur, þó ég segi sjálf frá....(eða kannski af því að ég segi sjálf frá???). Þannig að eins og flest allir aðrir háskólanemar er ég búin að vera að teikna og leira og lita og klippa og líma og svo framvegis, eða er það ekki annars það sem maður gerir í háskóla?

En út í aðra sálma (vá, þetta er nú orðin meiri langlokan. Nennir einhver að lesa þetta allt?). Við skiluðum loksins verkefninu og ég held meira að segja að við höfum verið fyrst. Við skiluðum á þriðjudegi en áttum ekki að skila fyrr en morguninn eftir. Það hefur ekki gengið svona vel að klára verkefni hingað til.

Svo fór ég í studietur til Hamborgar í Þýskalandi með u.þ.b. 75 öðrum. Það var merkileg ferð. Við fórum í rútu og keyrðum alla leið í gegnum Jótland og að landamærunum þar sem að það var auðvitað stoppað til að kaupa ódýrt áfengi og nammi. Þegar við loksins komum á leiðarenda um 2 leytið var farið út úr rútunni til að labba um borgina og skoða hús í heila 4 tíma. Ekki bætti það úr skák að það tók óratíma að finna hótelið okkar en ég held að öll ljósaskiltin með loforðum og naktar konur og kabaret hafi svolítið dregið athyglina frá hótelskiltinu. Það var nefnilega við þá merku götu Reberbahn sem að er "djammgatan" í Hamborg. Ég tók nú ekkert sérstaklega eftir því en það voru víst einhverjir venjulegir skemmtistaðir inn á milli klámbúllanna og -búðanna.

Maður komst heldur ekki hjá því að taka eftir öllum stelpunum sem voru í dúnúlpum og með svona tösku um mittið eins og ekta ferðamenn. Einhver fróður maður sagði manni svo að þessar stelpur væru falar og meira að segja á tilboði 2 fyrir 1 á 30 evrur! Það kalla ég sko gott tilboð. En ef maður vildi fá vandaðri vöru var um að gera að skella sér í "götuna". Hún var lokuð í báða enda svo að hver sem er væri ekki að kíkja þangað inn. Við ákváðum að kíkja, en komumst fljótt að því að kvenfólk er ekkert rosalega vinsælt þar. Þarna sátu dömurnar í undirfötunum einum saman fyrir innan risastóra glugga, sem hægt var að opna alveg upp á gátt, til að ræða verð og svona. En þeir reyndust líka ágætir til annarra nota. Eins og ég sagði áður vorum við stelpurnar ekkert voðalega velkomnar þarna og t.d. hrækti ein stelpan á mig tyggjói, önnur hrópaði að manni ókvæðisorðum og einhverju á þýsku, sem var víst eitthvað um vinnustað og eitthvað sem ég skildi ekki. Enn aðrir fengu yfir sig kaffi, og þá meina ég YFIR SIG. Við hættum okkur allavega ekki sömu leið til baka. En vændi er greinilega blómstrandi grein í Hamborg, það get ég sagt ykkur.

Ég veit nú ekki hvort ég eigi að vera að segja meira frá þessari ferð, fólk er sennilega farið að geyspa nú þegar. Það var nú svo sem ekki mikið meira frásögu færandi sem gerðist; margar byggingar, mikið dót, mikið labb, mikið setið í rútu og mikil rigning. Jú, kannski ég minnist á það aðeins að okkur tókst að ekki bara týna einum vejleder heldur að týna sjálfri rútunni. Það þykir mér nú vel að verki staðið, þar sem að rútan var nú ekki beint lítil. En hún fannst loksins aftur og rútubílstjórinn og nokkrir nemendur líka. Vejlederinn komst til skila eftir að við höfðum stungið hann af og farið að fá okkur að borða.

Jæja, ég ætla að vona að þetta bæti upp bloggleysið síðustu daga. Skrifa aftur seinna og segi kannski frá ferðinni til Odense til að hitta afa og ömmu, sem að hefur reyndar ekki enn verið farin.

Bið að heilsa í bili
Ríkey