Ríkey Ofurbloggari!

Lífið í Danmörku

20 ágúst 2009

Date night.

Við Haukur fórum á stefnumót í gær. Við höfum ekki farið ein út síðan í janúar 2008, þá fórum við út að borða.
Í gær fórum við út að borða og í bíó. Eiríkur var í pössun hjá Svanborgu og Rakel og fékk að gista þar. Svanborg fór meira að segja með hann á legestue í morgun, þannig að við gátum sofið út. Við vöknuðum reyndar klukkan korter yfir 7.
Það var ótrúlega skrítið að hann skuli ekki hafa verið sofandi uppi í rúmi þegar við komum heim og að við skulum ekkert sjá hann fyrr en seinni partinn.
Ótrúlegt hvað maður saknar barnanna sinna.

13 ágúst 2009

Snilld.

Ég fann snilldar síðu í morgun. Það var verið að tala um þetta í morgunsjónvarpinu. Á þessari síðu er hægt að fletta upp hljómsveitum og finna lagalista á þeim tónleikum sem þær hafa haldið, allavega ef það er búið að setja það inn á síðuna. Það er bara venjulegt fólk sem setur þetta inn.
Ég var að klára að hlusta á Madonnu tónleikana sem voru haldnir í Kbh í fyrradag. Það er reyndar ekki hægt að hlusta á tónleikana sjálfa, heldur er hægt að hlusta á lögin sem voru flutt. Það eru linkar á Youtube, og listinn heldur áfram að spila til enda. Núna er ég að hlusta á Coldplay tónleikana sem við Haukur fórum á fyrir 8 árum. Þetta eru þeir:


10 ágúst 2009

"Mamma stór stelpa"

Nú fer sumarfríið að verða búið... ég ætla ekki að segja loksins, því ég væri alveg til í að halda áfram að slappa af, en einhverntímann verður maður nú að fara að koma sér að verki.

Ég skilaði verkefninu mínu fyrir 9. önn fyrir viku síðan og bíð núna eftir að heyra hvenær ég fer í prófið. Ég vildi að ég gæti sleppt prófinu, get ekki sagt að ég sé aðdáandi, en af öllum prófum sem ég hef farið í, held ég að þetta hljóti að vera það auðveldasta. Ég hef allavega ekki miklar áhyggjur af því að falla, en ég er samt alltaf stressuð fyrir próf. Það er eitthvað við það að standa fyrir framan fólk, sem er bara komið til að dæma mig, sem mér finnst ekki beint aðlaðandi.

Næsta önn byrjar svo í september, en þar sem ég er að fara að skrifa lokaverkefni og er ein að skrifa, veitir manni ekkert af tímanum. Ég ætla því að reyna að byrja á verkefninu í dag. Ég ákvað að taka mér smá sumarfrí í síðustu viku, enda ekki hægt annað, veðrið er búið að vera svo gott. Svo er bara að koma sér í vinnugírinn núna.

Ríkey