Ríkey Ofurbloggari!

Lífið í Danmörku

20 ágúst 2009

Date night.

Við Haukur fórum á stefnumót í gær. Við höfum ekki farið ein út síðan í janúar 2008, þá fórum við út að borða.
Í gær fórum við út að borða og í bíó. Eiríkur var í pössun hjá Svanborgu og Rakel og fékk að gista þar. Svanborg fór meira að segja með hann á legestue í morgun, þannig að við gátum sofið út. Við vöknuðum reyndar klukkan korter yfir 7.
Það var ótrúlega skrítið að hann skuli ekki hafa verið sofandi uppi í rúmi þegar við komum heim og að við skulum ekkert sjá hann fyrr en seinni partinn.
Ótrúlegt hvað maður saknar barnanna sinna.

13 ágúst 2009

Snilld.

Ég fann snilldar síðu í morgun. Það var verið að tala um þetta í morgunsjónvarpinu. Á þessari síðu er hægt að fletta upp hljómsveitum og finna lagalista á þeim tónleikum sem þær hafa haldið, allavega ef það er búið að setja það inn á síðuna. Það er bara venjulegt fólk sem setur þetta inn.
Ég var að klára að hlusta á Madonnu tónleikana sem voru haldnir í Kbh í fyrradag. Það er reyndar ekki hægt að hlusta á tónleikana sjálfa, heldur er hægt að hlusta á lögin sem voru flutt. Það eru linkar á Youtube, og listinn heldur áfram að spila til enda. Núna er ég að hlusta á Coldplay tónleikana sem við Haukur fórum á fyrir 8 árum. Þetta eru þeir:


10 ágúst 2009

"Mamma stór stelpa"

Nú fer sumarfríið að verða búið... ég ætla ekki að segja loksins, því ég væri alveg til í að halda áfram að slappa af, en einhverntímann verður maður nú að fara að koma sér að verki.

Ég skilaði verkefninu mínu fyrir 9. önn fyrir viku síðan og bíð núna eftir að heyra hvenær ég fer í prófið. Ég vildi að ég gæti sleppt prófinu, get ekki sagt að ég sé aðdáandi, en af öllum prófum sem ég hef farið í, held ég að þetta hljóti að vera það auðveldasta. Ég hef allavega ekki miklar áhyggjur af því að falla, en ég er samt alltaf stressuð fyrir próf. Það er eitthvað við það að standa fyrir framan fólk, sem er bara komið til að dæma mig, sem mér finnst ekki beint aðlaðandi.

Næsta önn byrjar svo í september, en þar sem ég er að fara að skrifa lokaverkefni og er ein að skrifa, veitir manni ekkert af tímanum. Ég ætla því að reyna að byrja á verkefninu í dag. Ég ákvað að taka mér smá sumarfrí í síðustu viku, enda ekki hægt annað, veðrið er búið að vera svo gott. Svo er bara að koma sér í vinnugírinn núna.

Ríkey

20 júlí 2009

Komin heim

Við fórum í 2 vikna frí til Íslands í byrjun mánaðar.

Þetta var óttalega notarlegt. Haukur hélt upp á afmælið sitt. Okkur fannst það heppnast mjög vel og það var voða gaman að ná að hitta svona marga.

Daginn eftir afmælið héldu fjölskyldurnar 2 (eða 3... fer eftir því hvernig maður lítur á það) í sumarbústað í sveint á Snæfellsnesi.

Fyrsta kvöldið fór ég með Önnu og Maju á sveitaball á hestamannamóti. Það var svo gaman hjá okkur, ég á seint eftir að gleyma þessu kvöldi.

Restinni af vikunni eyddum við í sveitasælu og við að skoða náttúruna á nesinu. Ég komst m.a. að því að ein af mínum fyrstu æskuminningum var ekki eitthvað sem ég bjó sjálf til, heldur eitthvað sem gerðist í raun og veru, ætli ég hafi ekki verið um 5-6 ára í bústaðarferð á Hellnum.
Gott að vita að maður er ekki snar-snældu geðveikur.

Afi og amma komu svo að austan og gistu hjá okkur eina nótt í bústað. Ég var mjög ánægð að fá að sjá þau og eyða smá tíma með þeim.

Eftir að við komum heim hefur ekki mikið gerst. Það tók okkur þó nokkurn tíma að komast yfir ferðaþreytuna og tímamismuninn og að koma okkur í gang aftur með að læra. Ég á að skila verkefninu mínu 3. ágúst. Það verður því lítið um blogg þangað til, og ég geri ekki ráð fyrir að skrifa eða setja inn myndir á nino fyrr en ég verð búin að skila.

Að því sögðu, ætli það sé ekki best að fara að koma sér að verki.

Ríkey

01 júní 2009

...og meiri sól.

Úff... það er búið að vera svo gott veður þessa dagana. Við fórum í sund í gær með Erlu, Ara, Emilíu og Arnóri, þau komu svo seinna um daginn til okkar og við grilluðum saman.

Í dag fórum við 3 í göngutúr niður að tjörn og þegar klukkan var komin yfir 12 var hitinn orðinn það óbærilegur að við drifum okkur heim. Eiríkur gafst upp á leiðinni og sofnaði í fanginu á pabba sínum.
Við erum búin að halda okkur inni megnið af deginum eftir það, enda sólin sterk og hitinn mikill og ekki hægt að vera úti í meira en 10 mínútur í einu.
Nú þegar líður á seinni partinn er reyndar farið að vera líft úti aftur. Þetta heldur áfram á morgun, víst, en restina af vikunni verða 15 stig og rigning.

Jæja, annar veðurpóstur, ég veit... en hefur maður einhvern tíma annað að tala um?

30 maí 2009

Sumarið er tíminn...

Ég sit hérna á sófanum og horfi út um svaladyrnar á glampandi sólskinið og er að spá af hverju ég sit hérna inni í tölvunni.
Kannski er það af því að Eiríkur er sofandi og það þarf að hlusta eftir honum. Annars er hann orðinn það stór að hann klifrar sjálfur upp úr rúminu þegar hann vaknar. Svo situr Haukur líka hérna við hliðina á mér þannig að hann heyrir nú líka í honum.
Kannski er það bara leti í mér að nenna ekki að labba 2 skref til að sitja í sólinni, en sjáið til... þá sér maður svo illa á tölvuskjáinn. Ég gæti líka farið út með tímarit, eða nýju bókina mína.

Já ég veit, ótrúlegt, en ég keypti mér bók um daginn: "101 things I learned in architecture school", og er nú þegar búin að læra helling af henni, til dæmis hvernig á að teikna línu. Hljómar kannski svolítið 'banalt', svo ég sletti nú svolítilli dönsku, en lína er ekki bara lína.

Þegar maður býr í landi þar sem sólskin og heiðskýrt og 20 stiga hiti er ekki eitthvað sem bara gerist einu sinni á ári, á maður svolítið til að vanmeta það. Auðvitað ætti maður að vera úti og njóta veðursins. Það er ekki eins og við verðum í Danmörku að eilífu og við eigum eftir að sjá mikið eftir veðrinu þegar við flytjum, en mikið er nú huggulegt að sitja hérna inni samt.

Það getur nú líka verið of mikið af því góða stundum. Ég fékk nú alveg nóg í gær eftir að hafa setið í sólinni í 5 mínútur. Það var bara allt of heitt.

Ég held að ég fari samt að hætta þessu kvarti yfir veðrinu og standi upp og setjist aðeins út, þó ekki væri nema í 5 mínútur. Heyrist líka Eiríkur vera að vakna rétt í þessu.

Ríkey.

22 maí 2009

Við fórum með bílinn okkar í skoðun um daginn og fengum ekki góða einkunn. Það þarf að skifta um dempara að aftan, sem við reyndar vissum og Haukur var búinn að panta. Þeir Gústi fóru svo í gær til að skifta um demparana, en auðvitað höfðum við fengið framdempara, en ekki afturdempara. Er þetta ekki bara týpískt?
Haukur fór svo í dag til að skila þeim og panta nýja. Eiríkur vil líka fá "dempanda" í sinn bíl og er búinn að vera að gera við hann í allan morgun.

Við komum heim í 2 vikur í sumar og höldum upp á þrítugsafmælið hans Hauks. Hann er farinn að verða gamall karlinn, veit ekki alveg af hverju maður ætti að halda upp á það, en eins og hann sagði sjálfur... maður verður bara þrítugur einu sinni.