Ríkey Ofurbloggari!

Lífið í Danmörku

26 september 2004

Udmærket!

Kæru lesendur. Þið fáið bestu einkunn hjá mér. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég fengi svona mörg komment. Þetta er alveg..... tja... udmærket! Hvorki meira né minna en 16 stykki. Sérstakar þakkir fær hún Línan mín fyrir góða frammistöðu.

Þið verðið að fyrirgefa það að ég skyldi ekki hafa bloggað fyrr, en það er búið að vera alveg brjálað að gera hjá mér í vikunni: hópavinna - autocad, autocad - hópavinna til skiptis alla vikuna og þegar ég var ekki í skólanum var ég að sinna tengdaforeldrunum.
Þau komu sko í heimsókn, alla leið frá Íslandi (en ekki hvað). Það var ekkert smá gaman að fá þau í heimsókn. Þau eru farin til Kaupmannahafnar núna og fara svo aftur heim á þriðjudaginn. Við Haukur sváfum í svefnsófanum frammi í stofu, ekkert smá þægilegt að slökkva bara á sjónvarpinu og snúa sér við og fara að sofa. Maður þurfti ekki einu sinni að standa upp.

Ég er ekki að nenna að fara í skólann á morgun. Fyrirlestur allan daginn í Arkitektonik og husbygning 1 - "svona byggir maður hús". En eftir skóla ætla ég að fara að kaupa mér skó. Ég skal setja mynd af þeim inn á síðuna ef að ég get fengið einhvern til að kenna mér það. Þeir eru geggjað flottir, eitthvað sem mér hefði aldrei dottið í hug að mér ætti eftir að finnast flott. Vonandi eru þeir ennþá til, mig dreymdi nefnilega í nótt að þeir væru búnir. Það var ekki góður draumur. Mig dreymdi líka að ég væri að segja Paul McCartney að hann ætti eftir að vera í mjög frægri hljómsveit með gaur sem héti Ringo Starr. Ég skil bara ekki hvaðan öll þessi vitleysa kemur - simpelthen.
Það sem mig dreymir væri nú bara efni í heilan bókaflokk: "Draumarnir hennar Ríkeyjar, bindi I, II og III". Ég er ekki viss um að ég sjálf myndi leggja í það að lesa það.

Jæja... ætli það sé ekki komin nóg vitleysa í þetta skiptið.
Rock on,
Ríkey

16 september 2004

Karate....

.... maður losnar aldrei við það!
Við erum aftur byrjuð að æfa karate á fullu, þökk sé Maríu (eða er það kannski henni að kenna?). Og ekki bara venjulegt karate heldur SPORTSKARATE! Þetta er alveg nýtt dæmi og gaurinn sem stofnaði þetta er víst landsliðsþjálfari Íslands í karate, og hann og bróðir hans eru kennararnir. Þetta er svona sambland af mörgum stílum og meira að segja tai kwon do líka. Það er lögð áhersla á kumete, eða bardaga fyrir þá sem ekki skilja karatísku. Þetta er mjög fínn klúbbur og æfingarnar eru mjög skemmtilegar, og ef maður gerist meðlimur þá fær maður bol og allt!!!
Svo er ég mikið að pæla í að fara í jóga líka. Ég ætlaði sko upprunalega að fara að æfa jóga í vetur en svo dró Mæja okkur með sér á karateæfingu og auðvitað varð maður "hooked". Við fáum að nota hanska og púða Í HVERJUM TÍMA! hugsiði ykkur.
Ég fór reyndar bara ein á æfingu í gær því að Haukur er í Rustur. Reyndar voru Mæja og Eyfi líka, annars erum við fimm í þessu saman, ég, Haukur, Mæja, Eyfi og Halla. Anna og Diddi sitja heima með krakkana á meðan :) Það er mjög fínt að vera svona mörg í þessu saman, því að þá er alltaf einhver sem að maður þekkir með á æfingu.

En eins og ég nefndi áðan er Haukur í Rustur, sem að er svona skólaferðalag sem maður getur farið í þar sem að er fyllerí og læti, en auðvitað verkefni og eitthvað svona akademískt líka. Honum hundleiðist reyndar, eða það skilst mér allavega á honum. Enda er líka miklu betra að vera heima með mér :)

Heirru.... vitiði hvað!!! Það er allt að verða brjálað hérna því að Alexandra prinsessa og Jóakim prins eru að SKILJA! Þetta er það eina sem fólk er búið að tala um í dag. Það fyrsta sem að fólk segir þegar það hittist er ekki hæ, heldur "ertu búinn að heyra... þau eru að skilja!". Klikkuðu danir. Hugsa ekki um annað en konungsfjölskylduna. Mér finnst þau bara ekkert merkilegri en ég sko.... eða kannski aðeins. Það var meira að segja gerð pása á fyrsta vejledermøde í hópnum mínum í dag til að hlusta á fréttatilkynninguna í útvarpinu.

Svona að lokum vil ég þakka öllum þeim sem að skildu eftir komment við síðasta blogg. Þetta er það sem að þetta allt saman gengur út á, að fá komment. Ég held meira að segja að það hafi verið sett met í kommentum á síðunni minni. Hversu sorglegt er það.... þau voru 5 og ég átti meira að segja eitt sjálf..... en kíp öpp ðe gúdd vörk mæ frends! Ég vona að ég fái sex komment (eða jafnvel fleiri) við þetta blogg. Það er líka svo langt sko... fullt að kommenta á....

Bið að heilsa í bili.
Ykkar Ríkey

11 september 2004

I'm back...

Jæja... nú er sumarfríið búið, við erum komin aftur "heim" til Danmerkur og skólinn er byrjaður. Og ekkert smá byrjaður. Það er ekki nema vika búin af honum og ég er strax búin að vera frameftir til kl. 9 að læra. Reyndar höfum við verið lítið annað en í fyrirlestrum og föndri alla vikuna. Undirbúningur fyrir stóra verkefnið, eða annað þeirra allavega. Ég er búin að vera að skera og líma pappa í heila viku og búa til rými. Hljómar spennandi, ég veit.

Það er ennþá sumar hérna úti, eða svona annan hvern dag allavega. Í gær var geggjað veður en í dag var þessi líka hellidemban úti, en heitt samt. Það er ágætt að fá svona smá framlengingu á sumrinu.

Í dag er hið árlega haustgrill hjá Íslendingafélaginu hér í Álaborg en í þetta skiptið ákváðum við Haukur að fara ekki. Það átti hver og einn að koma með sitt á grillið og við ákváðum bara að borða heima og sjá svo til en ég held að við förum ekkert upp úr þessu. Klukkan er nú að verða tíu og svona og þegar við værum loksins komin uppeftir verður kominn tími til að fara heim með síðasta strætó.

Svo fékk ég líka brunablöðru áðan. :( Ekki gaman! Ég fattaði það ekki fyrr en við vorum búin að borða. Ég byrjaði náttúrulega að stinga upp í mig brennheitri kartöflu og var með ekkert að drekka til að kæla mig niður og fékk þar af leiðandi brunablöðru Í GÓMINN! Ég vissi ekki einu sinni að það væri hægt. Og hún er meira að segja risastór. Ég verð nú bara að fá mér smá súkkulaði í sárabætur.

Jæja. Ég er farin að drekka mig fulla af 17 krónu hvítvíni.

Later,
Ríkey