Ríkey Ofurbloggari!

Lífið í Danmörku

17 desember 2004

Tvö rauð belti!

Jibbí! Loksins er ég komin með rautt belti í karate........aftur.
Það var gráðun í gær hjá Sportskarate.dk og við skötuhjúin og Eyfi og Mæja tókum öll rautt belti. Þjálfararnir voru allir mjög ánægðir með okkur og við vorum öll yfir meðaltali. Húrra fyrir okkur :D
Eftir gráðun var haldið af stað á Julefrokost. Hann var haldinn á Konrads, sem er lítill veitingastaður í eigu íslendings. Þar var boðið upp á 3 fiskrétti í forrétt, andabringu með ýmsu í aðalrétt og ísköku í eftirrétt. Ég hef nú bara sjaldan borðað jafn góðan mat á ævinni. Hann var geggjað góður. Ég mæli með Konrads.
Við förum heim eftir aðeins 3 daga, að hugsa sér. Það virkar hálf ómögulegt þegar maður hugsar um allt sem maður þarf að gera áður en maður fer. Verkefnið er ennþá á fullu og að sjálfsögðu verður mætt í skólann um helgina. Ekkert helgarfrí fyrir mig frekar en fyrri daginn :(
Núna er hún Lína komin heim til Íslands. Ég vil endilega nota tækifærið og bjóða hana velkomna heim. Ég hlakka til að sjá þig Lína mín - bara 4 dagar í það.
Ég ætla að fara að drífa mig heim núna, klukkan er að verða 7 og það fer að koma kvöldmatartími. Ég verð bara að halda áfram með Autocad heima og kannski skrifa nokkur jólakort. Já, haldiði ekki að mín hafi bara setið uppi með að gera Autocad enn einu sinni. Það er svona þegar maður getur ekki skrifað texta, maður er settur í skítverkin. Nei, nei. Ég held að ég vilji frekar teikna í Autocad heldur en að leiðrétta og skrifa texta á dönsku. Svo er ég líka sú eina sem að get teiknað þetta frábæra kerfi fyrir blöndunartækið okkar sem ég fann upp. Ég er bara orðin uppfinningarkona, hvorki meira né minna. Ógila klár! Leiðbeinandinn okkar var ekkert smá hrifinn af því.
Jæja, hættu að monta þig Ríkey.
Ég bið bara að heilsa fólkinu í bili og ég sé allavega einhver af ykkur eftir nokkra daga. Hlakka til.
Luv, ég.

13 desember 2004

Allt á fullu!

Sælt veri fólkið.
Ég ætla aðeins að stelast til að blogga. Ég á sko að vera að finna eitthvað um blöndunartæki á netinu, sko hvernig svoleiðis virkar. Það er eitt af því sem að við þurfum að vita fyrir verkefnið okkar - hlómar spennandi, ég veit.
Þetta verkefni er nú meira vesenið mar.... Við mættum í skólann yfir alla helgina, laugardag og sunnudag frá 10 til hálf 6 og hálf 5. Ég mætti reyndar aðeins seinna á sunnudag því við Haukur fórum að versla jólagjafir um morguninn. Núna erum við búin að kaupa allar nema eina, sem betur fer. Ég á eftir að búa til 2 og svo eru jólakortin eftir en þau ætla ég bara að skrifa heima held ég, ég geri allavega ekki ráð fyrir að geta skrifað þau í vikunni. Kannski maður noti bara tímann í lestinni.... ágætis hugmynd, ég geri það bara.
Við förum heim eftir viku, næsta mánudag. Ekkert smá stutt þangað til! Maður er nú aðeins farinn að hlakka til sko, er að ákveða hvað ég ætla að hafa með mér. Ætli það verði nokkuð pláss fyrir fötin mín fyrir jólagjöfum og skóladóti! Annars er ég viss um að við verðum með allt of mikinn farangur, eins og venjulega. Það er okkur lífsins ómögulegt að "pakka létt". Við erum alltaf yfir mörkunum og getum oftast ekki lokað töskunum fyrir drasli. Ég skil þetta ekki, maður gerir svo ekkert annað en að skera niður í því sem að maður ætlar að taka með og notar samt ekki nærri því allt sem að maður tók með. Maður virðist aldrei ætla að læra....
Jæja... hádegishlé....
Later,
Ríkey

05 desember 2004

blaaaaa...

Ég er búin að vera ótrúlega andlaus síðustu daga. Ég hef ekkert nennt að blogga eða gera neinn skapaðan hlut annan hvað þá heldur. Verkefnin hlaðast upp og eftir því sem að það er meira að gera, því minna nennir maður að gera. Það þarf að læra og skila verkefni og svo þarf auðvitað að kaupa jólagjafir og skrifa jólakort og undirbúa heimferð og gera jólagjafir og ég veit ekki hvað og hvað. Jólin koma á alveg ótrúlega óhentuglegum tíma í ár. Er ekki hægt að fresta þeim um mánuð eða svo?
Við fórum til Odense um síðustu helgi. Við fórum að hitta ömmu og afa og hittum auðvitað Alla Helga, Mie, Sædísi Ósk og Önnu Valdísi í leiðinni. Alli Helgi er sko bróðir pabba og Mie er kærastan hans, Sædís er dóttir Alla og Anna er dóttir hennar. Hún er algjör rófa, hún verður eins árs í janúar. Hún er algjör stríðnispúki, hún var með rúnstykki sem hún var að narta í og svo rétti hún það alltaf út til þess að gefa manni með sér en þegar maður ætlaði að fara að bíta þá kippti hún henndinni að sér aftur og svo hló hún og klappaði og það surgaði alveg í henni. Þetta gerði hún aftur og aftur. Hún var í pössun hjá afa sínum yfir aðra nóttina sem við vorum þarna og ég held að ég hafi aldrei vitað um blíðara og þægilegra barn. Hún grét ekki einu sinni á meðan við vorum þarna, hún er alltaf í góðu skapi. Við vorum næstum því búin að taka hana með okkur til Álaborgar en mamma hennar var ekkert rosalega hrifin af því.
Draumabarn alveg.
Geriði ykkur grein fyrir því að það eru bara 2 vikur og 1 dagur þangað til að við komum heim til Íslands? Mér finnst það hræðilegt, ekki það að fara til Íslands heldur þegar ég hugsa um allt sem ég þarf að gera áður þá fæ ég næstum taugaáfall. Er hægt að klára heilt verkefni á 2 vikum? Við ætlum sko að reyna að vera búin með allt verkefnið okkar áður en við förum í jólafrí til að geta átt "frí" þá og við eigum allt eftir nema að ákveða nokkurn vegin hvað við viljum gera. PANIK!
Ætli það sé þá ekki kominn tími til að drulla sér til að fara að læra. Það gerist ekkert ef maður hangir alltaf í tölvunni að blogga.

Þangað til næst.
Ríkey